Er ég samsekur?


Nú er ákveðnum þætti fáránleikans í Írak lokið. Búið að taka af lífi fyrrum einræðisherra með blóðuga fortíð. Aftökur eru viðbjóðsleg arfleifð ofbeldisfullrar og menningarsnauðrar fortíðar mannkyns, óásættanlegar með öllu,. Viðbrögð heimsbyggðarinnar eru blendin. Margir fordæma aftökuna jafnt samtök sem einstaklingar. Fulltrúi samtakanna Amnesty International á Íslandi lýsti skýrri afstöðu þeirra:  Amnesty er andvígt aftökum, alltaf, allstaðar. Samtökin eru nú á tímum einn helsti boðberi siðaðra samskipta manna og þjóða í heiminum.

Svo eru þeir sem gleðjast. Það kom á óvart að Tony Blair gladdist. Hann á þó að heita sæmilega menntaður maður og heimaland hans Bretland er hluti af Evrópusambandinu þar sem dauðarefsingar eru löngu aflagðar og allstaðar bannaðar. Það kom hinsvegar ekki á óvart þó forseti Bandaríkjanna gleddist yfir aftöku Saddams Hussein. Hann virðist sélega blóðþyrstur valdhafi og á sennilega Norðurameríkumet í aftökum í valdatíð sinni sem ríkisstjóri í Texas. Í hans ríkisstjóratíð voru teknir af lífi jafnt fullorðnir, ungmenni og þroskaheftir. Þessi maður, George W Bush, að eigin sögn í sérstöku trúnaðarsambandi við Guð almáttugann, á góða, háttsetta vini á Íslandi. Ætli vinir hans hér samgleðist honum?

Utanríkisráðherra Íslands (af kurteisisástæðum nefni ég ekki nafnið) lýsti óánægju sinni með aftökuna, kvaðst ekki styðja slíkar ákvarðanir. Ráðherrann gat þó ekki á sér setið að fullyrða að ákvörðunin hafi verið tekin af löglegum dómstól! Löglegum dómstól! Dómstóllin var settur á laggirnar af hernámsliði! Við virðum niðurstöður íraskra dómstóla segir utanríkisráðherra Íslands. Fulltrúi Amnesty á Íslandi hefur bent á að réttarhöldin hafði frá upphafi verið meingölluð og algjörlega á skjön við alþjóðalög, nánast skrípaleikur frá upphafi til enda. En íslenski utanríkisráðherrann kom því sérstaklega að í viðtali á gamlársdag að ákvörðunin væri niðurstaða löglegs dómstóls! Átti það að réttlæta aftökuna? Eru ekki allir íslenskir ráðherrar á móti dauðarefsingum? Eru ekki íslendingar aðili að alþjóðasamningi gegn dauðarefsingum?

Ísland var meðal þeirra landa sem voru á lista hinna viljugu. Hvað þýðir að vera viljugur? Þýðir það að styðja aðeins innrás en ekki afleiðingar innrásar? Hvaða þýðingu hefur það að íslensk stjórnvöld hafa ekki viljað endurskoða afstöðu Íslands eftir að það kom í ljós að allar forsendur voru rangar, ligar og blekkingar? Erum við öll samsek? Ber öll íslenska þjóðin ábyrgð á þeim ákvörðunum sem fulltrúar hennar taka?

Nú vil ég skora á sérfróða í alþjóðarétti: Þið sem hafið þekkingu á alþjóðalögum og lögum almennt, gerið mér þann greiða að svara mér: Er ég morðingi og/eða samsekur um aftöku eftir meingölluð réttarhöld þegar Saddam Hussein var hengdur? Hefði ég þurft að lýsa því yfir opinberlega að ég væri ekki sammála Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni þegar þeir samþykktu eða tilkynntu um veru Íslands í hópi hinna viljugu? Alþjóðasamfélagið fékk ekki að vita að ég var á móti. Er ég þá samsekur? Er öll þjóðin samsek? Er ég hluthafi í aftöku?


Forvalskostnaður

 

Í aðdraganda forvals VG í Reykjavík og Kraga var ákveðið að halda forvalskostnaði í lágmarki. Það varð þegjandi samkomulag um að kaupa ekki auglýsingar í fjölmiðlum og að öðru leiti að halda kostnaði við kynningu i lágmarki.

Ég verð að viðurkenna að kostnaður minn við forvalið varð meiri en margra annarra. Til að útskýra þetta vil ég hér með gera hreint fyrir mínum dyrum. Kostnaðurinn skiptist þannig:

 Myndataka kr. 2.000.-

Klipping fyrir myndatöku kr. 2.500.-

                       Samtals kr. 4.500.-

 Ég vil þó rökstyðja þá skoðun mína að kostnaðurinn sé í raun talsvert minni.

Þegar frambjóðendabæklingnum var dreift á frambjóðendafundi í Vesturgötusalnum skömmu fyrir forval kom að máli við mig félagi í flokknum sem er sérfróður um almannatengsl.

"Djöfull er þessi mynda af þér vond" sagði hann. "Hún gerir þig ennþá eldri en þú ert". Ég varð að játa að hann hafði rétt fyrir sér. Ég var ferlega gamallegur, eins og það væri ekki nóg samt. "Ég held að réttast væri fyrir þig að leggja myndina inn á Mogganum til notkunar í mögulegri minningargrein" bætti hann við í huggunartón. Mér sárnaði í fyrstu en sá síðan í hendi mér að hugmyndin var góð.

Ég tel því að ég geti með góðri samvisku dregið kr. 2.000.- frá forvalskostnaði og bókfært sem fyrirframgreiddan útfararkostnað.

Þá er upphæðin orðin kr. 2.500.-

Nú er á það að líta að maður þarf að láta klippa sig reglulega hvað sem forvali líður. Og klippingin var ekki einvörðungu vegna forvalsins, ég flýtti aðeins klippingunni um svo sem eina viku. Því verður að teljast sanngjarnt að draga frá klippikostnaði kr. 500.-. Niðurstaðan er þá þessi:

Forvalskostnaður minn var þá kr. 2000.-, "krónur tvöþúsund".

Steinar

 

 


Enginn var blekktur.

Nýr formaður Framsóknarflokksins  reynir nú að afsaka stuðning framsóknaráherranna við innrásina í Írak. Röksemdin er sú að þeir hafi verið blekktir. Og nú vilji hann, nýi formaðurinn, leiða sannleikann í ljós. Blekktir! Hver fæst til að trúa því? Hver var blekktur?

Í aðdraganda innrásarinnar var málið rætt á Alþingi. Halldór Ásgrímsson lýsti því yfir degi áður en Ísland var sett  á lista hinna viljugu að fara ætti eftir ályktun SÞ sem ekki heimilaði innrás. Engin gjöreyðingarvopn höfðu fundist og Hans Blix óskaði eftir frekari fresti til að leita vopna. Þá ákváðu tveir menn að setja Ísland á lista hinna viljugu og gera íslendinga meðábyrga á ólöglegri innrás í Írak án samþykkis SÞ. Án samþykkis Alþingis. Án samþykkis utanríkismálanefndar. Án samþykkis þjóðarinnar. Innrás sem var brot á sáttmála SÞ og ólögmæt samkvæmt alþjóðalögum.

Þessi gjörningur, að tengja nafn Íslands við þessa  ákvörðun, var svívirðilegt brot á stjórnarskrá lýðveldisins, óafmáanlegur blettur á heiðri þjóðar sem hafði lýst því yfir að hún færi aldrei með vopnum að annari þjóð. Þessi smánarblettur verður aldrei afmáður hvernig sem ráðherrar og þingmenn sem hlut áttu að máli rembast við að útskýra atburðinn sem mistök.

Það voru ekki gerð nein mistök. Ákvörðunin var meðvituð. Það eru allar líkur á því að með þessum gjörningi hafi verið reynt að hafa áhrif á þá ætlun BNA að fara með herinn frá Íslandi. Ákvörðunin var í hefðbundnum stíl meðhlauparans sem við þekkjum svo vel þegar Bandaríkjamenn eiga í hlut.

Við vorum blekktir, þetta voru mistök! Einn ráðherra Framsóknar telur að bandaríkjaforseti eigi að biðja afsökunar á því að hafa blekkt hann til að samþykkja þessa ákvörðun. Sú hugmynd segir talsvert um hæfileika ráðherrans til að hugsa sjálfstætt og rökrétt.

Það var enginn blekktur.

Enginn!


Hjólreiðabrautir

Ég hef fengið fyrirspurn um það hvort ég muni beita mér fyrir því að hjólreiðabrautir komist á vegalög  og hvort ég líti á hjólreiðar sem raunhæfan samgöngukost í þéttbýli. Ég skal með ánægju svara því:

Ég er mjög fylgjandi því að hjólreiðabrautir komist á vegalög og tel að hjólreiðar séu sannarlega  raunhæfur samgöngukostur í þéttbýli. Það væri gott skref í þá átta að draga úr ókostum einkabílastefnunnar. Hjólreiðar eru umhverfisvænn samgöngumáti, laus við mengun og laus við þá orkusóun sem er fylgifiskur einkabílastefnunnar. 


Að versla alls ekki!

Félagi okkar og frambjóðandi, Jóhann Björnsson, vakti á heimasíðu sinni í morgun athygli á því að í dag er "kaupum ekkert" dagurinn. Jóhann bendir á það neysluæði sem virðist hafa gripið þjóðina og hvernig verðmætamat okkar í dag tekur mið af dauðum hlutum.

Ég fór að velta fyrir mér hvernig fólk í dag eyðir frítíma sínum og þá sérstaklega helgarfríum. Áður fyrr (fortíðarþrá, afturhald!) fóru fjölskyldur saman í bíltúra á sunnudögum. Algengt var að fara Þingvallahring og auðvitað með viðkomu í Eden í Hveragerði. Sumir fóru Reykjaneshring, Krísuvíkurveg til Grindavíkur og Reykjanesbraut heim. Þetta er liðin tíð. Hvað gerum við þá um helgar? Við förum í Smáralind og svo í IKEA!

Það er því sannarlega þörf á "kaupum ekkert" degi að minnsta kosti einu sinni á ári. Það mætti svo þróa þennan sið, næsta skref yrði ársfjórungslega, síðan mánaðarlega osfrv.

Kaupum ekkert dagurinn átti sér góðan málsvara sem fyrir nokkru síðan safnaðist til feðra sinna. Það var Hermann Vilhjálmsson, borgarstarfsmaður en margir Reykvíkingar sem komnir eru af barnsaldri  muna eftir honum. Hermann var sparsamur vel og eyddi ekki fé sínu í óþarfa. Eftir Hermanni er haft spakmæli sem ég tel með þeim bestu á landinu:

"Þó að það sé góðra gjalda vert að gera hagstæð innkaup þá er það nú samt aðalatriðið að versla alls ekki" 

 


Útlendingavandinn

Um fátt er meira rætt þessa dagana en "útlendingavandann". Hver er hann þessi mikli vandi? Eru þetta hópar auðnuleysingja sem hingað streyma í óþökk stjórnvalda? Eru þeir hingað komnir til að leggjast upp á  hið "frábæra, íslenska velferðarkerfi"?

Það erlenda vinnuafl sem hingað hefur flutt á síðustu árum kemur hingað vegna mikillar atvinnu sem stafar m.a. af stóriðjustefnu núverandi ríkisstjórnar.

Í sumum starfsgreinum, t.d. í byggingariðnaði er mikill meiri hluti starfsmanna á mörgum vinnustöðum af erlendum uppruna, margir nýfluttir til landsins. Hlutfall erlendra starfsmanna í atvinnulífinu er nú hið hæsta á norðurlöndum. Margir landsmenn eru nú uggandi, hræddir við nýja siði, framandi trúarbrögð. Oft  má heyra  klisjukennda flokkun eftir þjóðerni eða uppruna:

Suðurevrópubúar eru blóðheitir og óútreiknanlegir, múslimar eru varasamir eða hættulegir trúarofstækismenn, austurevrópubúar er flestir mafíósar, asíubúar einangrast í eigin hópum en pólverjar eru duglegir!

Atvinnurekendur flesti taka nýjum starfsmönnum fagnandi. Erlendu starfsmennirnir fylla í skörðin þegar þenslan er slík að innlent vinnuafl dugar ekki til. Erlendu starfsmennirnir eru kærkomnir í láglaunastörfin sem landsmenn sætta sig ekki við. Og svo eru þeir til sem nýta sér út í æsar möguleikann á því að borga laun langt undir lágmarkslaunum og níðast á þeim sem ekki þekkja rétt sinn og eru í vægast sagt veikri aðstöðu til að rétta hlut sinn. Hvaða útlendur starfsmaður vogar sér að kvarta, kominn hingað um langan veg til að vinna, þegar hætta er á að missa vinnuna?

Í mörgum evrópulöndum hafa skapast vandamál vegna fjölda innflytjenda. Þeir safnast saman í ákveðnum hverfum, taka með sér siði og venjur heimalandsins, tala mál nýja landsins lítt eða ekki, einangrast og verða lægstir allra í mannfélagsstiganum. Við þessu hafa norðurlöndin reynt að bregðast með félagslegum aðgerðum s.s. öflugri, ókeypis kennslu í máli nýja heimalandsins og fullorðinsfræðslu.

En hvernig ætla Íslendingar að bregðast við þessum þessum fjölda erlendra starfmanna? Er ráðið það að takmarka fjölda aðfluttra, loka landinu fyrir útlendingum eða fyrir ákveðnum þjóðum og þá helst þeim fátækustu í Evrópu?

Hér á landi hafa stjórnvöld ekki haft neina stefnu í málefnum útlendinga nema þegar um hefur verið að ræða litla hópa flóttamanna. Þau sveitarfélög sem tekið hafa á móti erlendum flóttamönnum hafa skipulagt komu þeirra vel, staðið að íslenskukennslu, aðstoðað við útvegun húsnæðis og atvinnu. Þessi verkefni hafa tekist vel, nýjum íslendingum vegnað vel.

Um aðra útlendinga sem sækja hingað til vinnu gegnir öðru máli. Stjórnvöld  hafa enga skýra stefnu haft, hafa ekki viljað  kosta neinu til. Þeir sem hafa viljað læra málið hafa orðið gera það á eigin kostnað í kvöldskólum eftir langan vinnudag. Þeir eru þó til sem eru svo heppnir að starfa hjá fyrirtækjum sem bjóða upp á íslenskukennslu í vinnutíma en það er mikill minnihluti. Nú hefur þó ríkisstjórnin ákveðið að veita 100 milljónum króna til íslenskulennslu fyrir útlendinga.

Vissulega geta skapast ýmiss vandamál þegar útlendir starfsmenn flykkjast til landsins. En við eigum að læra af mistökum annarra. Vandinn hverfur ekki með því að loka landinu. Stjórnvöld verða að setja stefnu og markmið. Við eigum að kenna íslensku í vinnutíma. Á öðrum norðurlöndum er kennsla í máli nýja landsins á vegum samfélagsins 2000-3000 kennslustundir oft dreifð á 3 ár. Innflytjendur eiga rétt á þessari kennslu og auðvitað ókeypis! Við eigum að kenna íslensku í vinnutíma. Og það er öruggt mál að 150 - 200 tímar er allt of lítið. Það er ekki sennilegt að auðveldara sé að læra íslensku en önnur norðurlandamál!  Og það er ekki nóg að kenna aðeins fyrirvinnum íslensku. Allir í fjölskyldu nýrra innflytjenda, eiginkonur, unglingar og börn þurfa kennslu í nýju tungumáli.

En það er ekki nóg að kenna íslensku. Við eigum að vinna gegn  fordómum á öllum sviðum, á vinnustöðum, í skólum, í samfélaginu öllu. Það þarf sérstök lög sem banna mismunun á grundvelli kynferðis, uppruna, litarháttar, kynhneigðar, trúar, efnahags, stjórnmálaskoðana og stöðu. Það á að koma í veg fyrir félagsleg undirboð. Útlendir starfsmenn eiga ekki að verða annars flokks þegnar á lægri launum en innfæddir. Það á með skýrri stefnu og markvissum aðgerðum að auðvelda innflytjendum þáttöku á öllum sviðum samfélagsins. Íslendingar verða að vera áfram ein þjóð jafnvel þó hluti hennar sé af erlendu bergi brotin.


Mannréttindi okkar og hinna

Margir telja að mannréttindi á Íslandi séu í samræmi við það sem skást gerist meðal þjóða. Það er að segja, mannréttindi okkar Íslendinga, þessarra infæddu. Um aðra, það er einstaklinga sem ekki hafa íslenskt ríkisfang, gegnir allt öðru máli.

Tökum til dæmis atvinnuréttindi. Þeir útlendingar sem ekki eru frá löndum innan Shengen-svæðisins, en búa og starfa á Íslandi, þurfa að lifa við þær niðurlægjandi aðstæður að atvinnuleyfi þeirra er bundið við atvinnurekandann sem þeir starfa hjá en ekki einstaklinginn sjálfan. Það gildir fyrstu árin. Um innfædda gilda allt aðrar reglur. Útlendingum er þannig mismunað á grundvelli þjóðernis.  Þetta fyrirkomulag gerir útlendan starfsmann algjörlega háðan atvinnurekandanum og staða hans er því mjög veik þegar hann þarf að leita réttar síns ef brotið er á honum. Þetta á jafnt við um launamál, félagsleg réttindi og vinnuaðstæður. Hver treystir sér til að sækja rétt sinn eða kvarta yfir aðstæðum og aðbúnaði sem háður er atvinnurekanda á þennan hátt? Hvaða rök eru fyrir því að viðhafa þennan fáránlega hátt? Hver er skýringin? Hræðsla, heimóttarskapur, fordómar, þjóðremba?

 Tökum nýleg lög um aldur útlendinga sem ætla ganga í hjónaband með innfæddum. Um þá gilda sérstök ákvæði um giftingaraldur. Þeim er mismunað á grundvelli þjóðernis. Rökin þau helst að dæmi væru um útlendinga sem giftust innfæddum til að öðlast dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi. Vegna þessar yfirvofandi hættu skal skerða mannréttindi þeirra. En hvaða hætta er fólgin í því að einstaklingar sem ekki eru fæddir á landinu gangi í hjónaband með innfæddum og öðlist þar dvalar- og atvinnuleyfi? Er hættan fólgin í blóðblöndun, framandi siðum, öðrum matarvenjum, öðrum trúarbrögðum? Engin haldbær rök eru fyrir því að viðhafa þennan fáránlega hátt. Hver er þá skýringin? Hræðsla, heimóttarskapur, fordómar, þjóðremba?

 Nýlega voru hér á ferð útlendingar sem, ásamt innfæddum, mótmæltu framkvæmdunum við Kárahnjúka og í Reyðarfirði. Og þá tók nú steinninn úr.

Það rifjar upp histeríuna í kingum Falung-gong hér um árið þegar listar með óæskilegum nöfnum voru sendir til áfangastaði Flugleiða og þetta flugfélag í almannaeigu var þannig dregið inn í mannréttindabrot íslenskra stjórnvalda með því að neita mönnum um farseðla á gundvelli þjóðernis. Þeim útlendingum, sem ekki náðist að stöðva á flugvöllum Evrópu var við komuna til landsins ekið rakleiðis frá Keflavíkurflugvelli í fangabúðir í nágrenni flugvallarins. Yfirvöld gáfust að vísu upp á þeim fáránlega farsa eins og menn eflaust muna en eftir fylgdi mikill lögguleikur dögum saman.

 En aftur að mótmælendunum við Kárahnjúka. Lögguleikurinn vegna Falung-gong var barnaleikur miðað við sefsýkina sem greip um sig vegna mótmælanna við Kárahnjúka. Mótmælendur voru undir stöðugu eftirliti einkennis- og óeinkennisklæddra lögreglumanna. Þeir voru eltir á röndum, ítrekað stöðvaðir, handteknir og yfirheyrðir. Af hverju stafar þessi móðursýkislegu viðbrögð við mótmælum? Er mögulegt að yfirvöld telji það vega að stoðum samfélagsins að ákvörðunum sem teknar hafa verið af  löglega kjörnum fulltrúum sé mótmælt? Eru það ekki almenn mannréttindi að láta í ljós skoðun sína, jafnvel þó að hún gangi gegn skoðun stjórnvalda og þeir sem mótmæla hafi annað ríkisfang en íslenskt? (Innfæddir  eru jú sjaldan fangelsaðir fyrir skoðanir sínar, nema þá helst okkar þekktasti mótmælandi, Helgi Hóseasson, sem iðuleg fékk að kenna á  refsivendi yfirvalda fyrir þá sök eina að vera ósammála andlegum og veraldlegum yfirvöldum plús það að sletta skyri, sem hann átti sannanlega sjálfur.) Ein helstu rökin fyrir þessum yfirgengulegu viðbrögðum vegna mótælanna við Kárahnjúka voru þau að þetta væru aðallega útlendingar! Jafnvel útlendir "atvinnumótmælendur". (Hvað er atvinnumótmælandi? Skyldi það vera vel borgað?

"Hvað gerir pabbi þinn"? "Hann er óréttlætismótmælandi".) Samkvæmt ákvörðun stjórnvalda  skal ekki líðast að útlendingar mótmæli framkvæmdum á Íslandi þó menn verði að þola það að hópur innfæddra sé stöðugt uppi með kjaft. Útlendinga sem mótmæla, skemma tæki, mála myndastyttur og húsveggi, skal reka úr landi með þeim afleiðingum að þeir geta ekki komið aftur til landsins næstu árin. Að öllu jöfnu er aðeins gripið til þessa ráðs þegar um er að ræða hættulega glæpamenn sem hlotið hafa refsingu fyrir alvarleg brot gegn almennum hegningarlögum.  Getur  verið að hér sé enn á ferðinni mismunun vegna þjóðernis? Hræðsla, heimóttarskapur, fordómar, þjóðremba?

 
(Gagnrýnislítil eða gagnrýnislaus umfjöllun fjölmiðla á Íslandi um aðgerðir lögreglu vegna mótmælanna við Kárahnjúka er niðurlægjandi fyrir starfshóp sem kallar sig stundum 4. valdið og væri efni í langa grein ).

 Þessi dæmi eru bara nokkur af fjölmörgum sem hægt væri að tína fram um furðulegan mismun í aðgerðum stjórnvalda og lagasetningu sem mismunar eftir þjóðerni.

 Það þarf að leggja fram á þingi frumvarp til laga um að lögleiða tilskipun ES um aðgerðir gegn mismunun á grundvelli þjóðernis og kynþáttar. Það hafa öll hin norðurlöndin þegar gert. Slík lagasetning er bæði þörf og tímabær og beinist gegn hræðslu, heimóttarskap, fordómum og þjóðrembu.

 


Mannréttindi óskast

 

Frá Færeyjum berast nú fréttir af fólskulegum árásum á samkynhneigða. Tónlistarmaðurinn Rasmus Rasmussen var fyrir árás fjögurra manna fyrir það eitt að hafa opinberað samkynhneigð sína.

Eftir viðtal við Rassmus sem birtist í Dimmalætting  hefur honum ítrekað verið hótað lífláti.

Samkynhneigðir í Færeyjum hafa neyðst til að flýja heimaland sitt til að geta lifað eðlilegu lífi, lausir við fordóma og ofsóknir.

Færeyska þingið hefur ekki enn samþykkt löggjöf um staðfesta samvist og engar réttarbætur hafa verið gerðar vegna samkynhneigðra í Færeyjum. Færeyjar munu nú vera eina norræna þjóðin sem ekki hefur sett í lög ákvæði um vernd samkynhneigðra.

Í Færeyjum eru ítök íhaldssamra sértrúarhópa mjög sterk og á þinginu virðist því við ramman reip að draga. Þó mun hafa verið lagt fram frumvarp í Færeyska þinginu  nú á dögunum um bætta stöðu homma og lesbía í landinu.

Það stendur okkur nær að koma til aðstoðar kúguðum og ofsóttum hópi við túngarð okkar. Ég skora á íslenska stjórnmálamenn að styðja við bakið á þeim Færeyskum þingmönnum sem reyna að bæta stöðu samkynhneigðra þar í landi með öllum tiltækum ráðum.

Allir ærlegir Íslendingar verða að senda  þeim Færeyingum, sem styðja baráttu samkynheigðra fyrir sjálfsögðum mannréttindum, skilaboð um stuðning og samstöðu.

Hægt er að skrifa undir áskorun til færeysku landstjórnarinnar  með því að fara inn á heimasíðu Samtakanna 78, samtokin78.is

 



Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband