Að versla alls ekki!

Félagi okkar og frambjóðandi, Jóhann Björnsson, vakti á heimasíðu sinni í morgun athygli á því að í dag er "kaupum ekkert" dagurinn. Jóhann bendir á það neysluæði sem virðist hafa gripið þjóðina og hvernig verðmætamat okkar í dag tekur mið af dauðum hlutum.

Ég fór að velta fyrir mér hvernig fólk í dag eyðir frítíma sínum og þá sérstaklega helgarfríum. Áður fyrr (fortíðarþrá, afturhald!) fóru fjölskyldur saman í bíltúra á sunnudögum. Algengt var að fara Þingvallahring og auðvitað með viðkomu í Eden í Hveragerði. Sumir fóru Reykjaneshring, Krísuvíkurveg til Grindavíkur og Reykjanesbraut heim. Þetta er liðin tíð. Hvað gerum við þá um helgar? Við förum í Smáralind og svo í IKEA!

Það er því sannarlega þörf á "kaupum ekkert" degi að minnsta kosti einu sinni á ári. Það mætti svo þróa þennan sið, næsta skref yrði ársfjórungslega, síðan mánaðarlega osfrv.

Kaupum ekkert dagurinn átti sér góðan málsvara sem fyrir nokkru síðan safnaðist til feðra sinna. Það var Hermann Vilhjálmsson, borgarstarfsmaður en margir Reykvíkingar sem komnir eru af barnsaldri  muna eftir honum. Hermann var sparsamur vel og eyddi ekki fé sínu í óþarfa. Eftir Hermanni er haft spakmæli sem ég tel með þeim bestu á landinu:

"Þó að það sé góðra gjalda vert að gera hagstæð innkaup þá er það nú samt aðalatriðið að versla alls ekki" 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband