Enginn var blekktur.

Nýr formaður Framsóknarflokksins  reynir nú að afsaka stuðning framsóknaráherranna við innrásina í Írak. Röksemdin er sú að þeir hafi verið blekktir. Og nú vilji hann, nýi formaðurinn, leiða sannleikann í ljós. Blekktir! Hver fæst til að trúa því? Hver var blekktur?

Í aðdraganda innrásarinnar var málið rætt á Alþingi. Halldór Ásgrímsson lýsti því yfir degi áður en Ísland var sett  á lista hinna viljugu að fara ætti eftir ályktun SÞ sem ekki heimilaði innrás. Engin gjöreyðingarvopn höfðu fundist og Hans Blix óskaði eftir frekari fresti til að leita vopna. Þá ákváðu tveir menn að setja Ísland á lista hinna viljugu og gera íslendinga meðábyrga á ólöglegri innrás í Írak án samþykkis SÞ. Án samþykkis Alþingis. Án samþykkis utanríkismálanefndar. Án samþykkis þjóðarinnar. Innrás sem var brot á sáttmála SÞ og ólögmæt samkvæmt alþjóðalögum.

Þessi gjörningur, að tengja nafn Íslands við þessa  ákvörðun, var svívirðilegt brot á stjórnarskrá lýðveldisins, óafmáanlegur blettur á heiðri þjóðar sem hafði lýst því yfir að hún færi aldrei með vopnum að annari þjóð. Þessi smánarblettur verður aldrei afmáður hvernig sem ráðherrar og þingmenn sem hlut áttu að máli rembast við að útskýra atburðinn sem mistök.

Það voru ekki gerð nein mistök. Ákvörðunin var meðvituð. Það eru allar líkur á því að með þessum gjörningi hafi verið reynt að hafa áhrif á þá ætlun BNA að fara með herinn frá Íslandi. Ákvörðunin var í hefðbundnum stíl meðhlauparans sem við þekkjum svo vel þegar Bandaríkjamenn eiga í hlut.

Við vorum blekktir, þetta voru mistök! Einn ráðherra Framsóknar telur að bandaríkjaforseti eigi að biðja afsökunar á því að hafa blekkt hann til að samþykkja þessa ákvörðun. Sú hugmynd segir talsvert um hæfileika ráðherrans til að hugsa sjálfstætt og rökrétt.

Það var enginn blekktur.

Enginn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband