Er ég samsekur?


Nú er ákveðnum þætti fáránleikans í Írak lokið. Búið að taka af lífi fyrrum einræðisherra með blóðuga fortíð. Aftökur eru viðbjóðsleg arfleifð ofbeldisfullrar og menningarsnauðrar fortíðar mannkyns, óásættanlegar með öllu,. Viðbrögð heimsbyggðarinnar eru blendin. Margir fordæma aftökuna jafnt samtök sem einstaklingar. Fulltrúi samtakanna Amnesty International á Íslandi lýsti skýrri afstöðu þeirra:  Amnesty er andvígt aftökum, alltaf, allstaðar. Samtökin eru nú á tímum einn helsti boðberi siðaðra samskipta manna og þjóða í heiminum.

Svo eru þeir sem gleðjast. Það kom á óvart að Tony Blair gladdist. Hann á þó að heita sæmilega menntaður maður og heimaland hans Bretland er hluti af Evrópusambandinu þar sem dauðarefsingar eru löngu aflagðar og allstaðar bannaðar. Það kom hinsvegar ekki á óvart þó forseti Bandaríkjanna gleddist yfir aftöku Saddams Hussein. Hann virðist sélega blóðþyrstur valdhafi og á sennilega Norðurameríkumet í aftökum í valdatíð sinni sem ríkisstjóri í Texas. Í hans ríkisstjóratíð voru teknir af lífi jafnt fullorðnir, ungmenni og þroskaheftir. Þessi maður, George W Bush, að eigin sögn í sérstöku trúnaðarsambandi við Guð almáttugann, á góða, háttsetta vini á Íslandi. Ætli vinir hans hér samgleðist honum?

Utanríkisráðherra Íslands (af kurteisisástæðum nefni ég ekki nafnið) lýsti óánægju sinni með aftökuna, kvaðst ekki styðja slíkar ákvarðanir. Ráðherrann gat þó ekki á sér setið að fullyrða að ákvörðunin hafi verið tekin af löglegum dómstól! Löglegum dómstól! Dómstóllin var settur á laggirnar af hernámsliði! Við virðum niðurstöður íraskra dómstóla segir utanríkisráðherra Íslands. Fulltrúi Amnesty á Íslandi hefur bent á að réttarhöldin hafði frá upphafi verið meingölluð og algjörlega á skjön við alþjóðalög, nánast skrípaleikur frá upphafi til enda. En íslenski utanríkisráðherrann kom því sérstaklega að í viðtali á gamlársdag að ákvörðunin væri niðurstaða löglegs dómstóls! Átti það að réttlæta aftökuna? Eru ekki allir íslenskir ráðherrar á móti dauðarefsingum? Eru ekki íslendingar aðili að alþjóðasamningi gegn dauðarefsingum?

Ísland var meðal þeirra landa sem voru á lista hinna viljugu. Hvað þýðir að vera viljugur? Þýðir það að styðja aðeins innrás en ekki afleiðingar innrásar? Hvaða þýðingu hefur það að íslensk stjórnvöld hafa ekki viljað endurskoða afstöðu Íslands eftir að það kom í ljós að allar forsendur voru rangar, ligar og blekkingar? Erum við öll samsek? Ber öll íslenska þjóðin ábyrgð á þeim ákvörðunum sem fulltrúar hennar taka?

Nú vil ég skora á sérfróða í alþjóðarétti: Þið sem hafið þekkingu á alþjóðalögum og lögum almennt, gerið mér þann greiða að svara mér: Er ég morðingi og/eða samsekur um aftöku eftir meingölluð réttarhöld þegar Saddam Hussein var hengdur? Hefði ég þurft að lýsa því yfir opinberlega að ég væri ekki sammála Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni þegar þeir samþykktu eða tilkynntu um veru Íslands í hópi hinna viljugu? Alþjóðasamfélagið fékk ekki að vita að ég var á móti. Er ég þá samsekur? Er öll þjóðin samsek? Er ég hluthafi í aftöku?


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband