Mannréttindi okkar og hinna

Margir telja að mannréttindi á Íslandi séu í samræmi við það sem skást gerist meðal þjóða. Það er að segja, mannréttindi okkar Íslendinga, þessarra infæddu. Um aðra, það er einstaklinga sem ekki hafa íslenskt ríkisfang, gegnir allt öðru máli.

Tökum til dæmis atvinnuréttindi. Þeir útlendingar sem ekki eru frá löndum innan Shengen-svæðisins, en búa og starfa á Íslandi, þurfa að lifa við þær niðurlægjandi aðstæður að atvinnuleyfi þeirra er bundið við atvinnurekandann sem þeir starfa hjá en ekki einstaklinginn sjálfan. Það gildir fyrstu árin. Um innfædda gilda allt aðrar reglur. Útlendingum er þannig mismunað á grundvelli þjóðernis.  Þetta fyrirkomulag gerir útlendan starfsmann algjörlega háðan atvinnurekandanum og staða hans er því mjög veik þegar hann þarf að leita réttar síns ef brotið er á honum. Þetta á jafnt við um launamál, félagsleg réttindi og vinnuaðstæður. Hver treystir sér til að sækja rétt sinn eða kvarta yfir aðstæðum og aðbúnaði sem háður er atvinnurekanda á þennan hátt? Hvaða rök eru fyrir því að viðhafa þennan fáránlega hátt? Hver er skýringin? Hræðsla, heimóttarskapur, fordómar, þjóðremba?

 Tökum nýleg lög um aldur útlendinga sem ætla ganga í hjónaband með innfæddum. Um þá gilda sérstök ákvæði um giftingaraldur. Þeim er mismunað á grundvelli þjóðernis. Rökin þau helst að dæmi væru um útlendinga sem giftust innfæddum til að öðlast dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi. Vegna þessar yfirvofandi hættu skal skerða mannréttindi þeirra. En hvaða hætta er fólgin í því að einstaklingar sem ekki eru fæddir á landinu gangi í hjónaband með innfæddum og öðlist þar dvalar- og atvinnuleyfi? Er hættan fólgin í blóðblöndun, framandi siðum, öðrum matarvenjum, öðrum trúarbrögðum? Engin haldbær rök eru fyrir því að viðhafa þennan fáránlega hátt. Hver er þá skýringin? Hræðsla, heimóttarskapur, fordómar, þjóðremba?

 Nýlega voru hér á ferð útlendingar sem, ásamt innfæddum, mótmæltu framkvæmdunum við Kárahnjúka og í Reyðarfirði. Og þá tók nú steinninn úr.

Það rifjar upp histeríuna í kingum Falung-gong hér um árið þegar listar með óæskilegum nöfnum voru sendir til áfangastaði Flugleiða og þetta flugfélag í almannaeigu var þannig dregið inn í mannréttindabrot íslenskra stjórnvalda með því að neita mönnum um farseðla á gundvelli þjóðernis. Þeim útlendingum, sem ekki náðist að stöðva á flugvöllum Evrópu var við komuna til landsins ekið rakleiðis frá Keflavíkurflugvelli í fangabúðir í nágrenni flugvallarins. Yfirvöld gáfust að vísu upp á þeim fáránlega farsa eins og menn eflaust muna en eftir fylgdi mikill lögguleikur dögum saman.

 En aftur að mótmælendunum við Kárahnjúka. Lögguleikurinn vegna Falung-gong var barnaleikur miðað við sefsýkina sem greip um sig vegna mótmælanna við Kárahnjúka. Mótmælendur voru undir stöðugu eftirliti einkennis- og óeinkennisklæddra lögreglumanna. Þeir voru eltir á röndum, ítrekað stöðvaðir, handteknir og yfirheyrðir. Af hverju stafar þessi móðursýkislegu viðbrögð við mótmælum? Er mögulegt að yfirvöld telji það vega að stoðum samfélagsins að ákvörðunum sem teknar hafa verið af  löglega kjörnum fulltrúum sé mótmælt? Eru það ekki almenn mannréttindi að láta í ljós skoðun sína, jafnvel þó að hún gangi gegn skoðun stjórnvalda og þeir sem mótmæla hafi annað ríkisfang en íslenskt? (Innfæddir  eru jú sjaldan fangelsaðir fyrir skoðanir sínar, nema þá helst okkar þekktasti mótmælandi, Helgi Hóseasson, sem iðuleg fékk að kenna á  refsivendi yfirvalda fyrir þá sök eina að vera ósammála andlegum og veraldlegum yfirvöldum plús það að sletta skyri, sem hann átti sannanlega sjálfur.) Ein helstu rökin fyrir þessum yfirgengulegu viðbrögðum vegna mótælanna við Kárahnjúka voru þau að þetta væru aðallega útlendingar! Jafnvel útlendir "atvinnumótmælendur". (Hvað er atvinnumótmælandi? Skyldi það vera vel borgað?

"Hvað gerir pabbi þinn"? "Hann er óréttlætismótmælandi".) Samkvæmt ákvörðun stjórnvalda  skal ekki líðast að útlendingar mótmæli framkvæmdum á Íslandi þó menn verði að þola það að hópur innfæddra sé stöðugt uppi með kjaft. Útlendinga sem mótmæla, skemma tæki, mála myndastyttur og húsveggi, skal reka úr landi með þeim afleiðingum að þeir geta ekki komið aftur til landsins næstu árin. Að öllu jöfnu er aðeins gripið til þessa ráðs þegar um er að ræða hættulega glæpamenn sem hlotið hafa refsingu fyrir alvarleg brot gegn almennum hegningarlögum.  Getur  verið að hér sé enn á ferðinni mismunun vegna þjóðernis? Hræðsla, heimóttarskapur, fordómar, þjóðremba?

 
(Gagnrýnislítil eða gagnrýnislaus umfjöllun fjölmiðla á Íslandi um aðgerðir lögreglu vegna mótmælanna við Kárahnjúka er niðurlægjandi fyrir starfshóp sem kallar sig stundum 4. valdið og væri efni í langa grein ).

 Þessi dæmi eru bara nokkur af fjölmörgum sem hægt væri að tína fram um furðulegan mismun í aðgerðum stjórnvalda og lagasetningu sem mismunar eftir þjóðerni.

 Það þarf að leggja fram á þingi frumvarp til laga um að lögleiða tilskipun ES um aðgerðir gegn mismunun á grundvelli þjóðernis og kynþáttar. Það hafa öll hin norðurlöndin þegar gert. Slík lagasetning er bæði þörf og tímabær og beinist gegn hræðslu, heimóttarskap, fordómum og þjóðrembu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband