Útlendingavandinn

Um fátt er meira rætt þessa dagana en "útlendingavandann". Hver er hann þessi mikli vandi? Eru þetta hópar auðnuleysingja sem hingað streyma í óþökk stjórnvalda? Eru þeir hingað komnir til að leggjast upp á  hið "frábæra, íslenska velferðarkerfi"?

Það erlenda vinnuafl sem hingað hefur flutt á síðustu árum kemur hingað vegna mikillar atvinnu sem stafar m.a. af stóriðjustefnu núverandi ríkisstjórnar.

Í sumum starfsgreinum, t.d. í byggingariðnaði er mikill meiri hluti starfsmanna á mörgum vinnustöðum af erlendum uppruna, margir nýfluttir til landsins. Hlutfall erlendra starfsmanna í atvinnulífinu er nú hið hæsta á norðurlöndum. Margir landsmenn eru nú uggandi, hræddir við nýja siði, framandi trúarbrögð. Oft  má heyra  klisjukennda flokkun eftir þjóðerni eða uppruna:

Suðurevrópubúar eru blóðheitir og óútreiknanlegir, múslimar eru varasamir eða hættulegir trúarofstækismenn, austurevrópubúar er flestir mafíósar, asíubúar einangrast í eigin hópum en pólverjar eru duglegir!

Atvinnurekendur flesti taka nýjum starfsmönnum fagnandi. Erlendu starfsmennirnir fylla í skörðin þegar þenslan er slík að innlent vinnuafl dugar ekki til. Erlendu starfsmennirnir eru kærkomnir í láglaunastörfin sem landsmenn sætta sig ekki við. Og svo eru þeir til sem nýta sér út í æsar möguleikann á því að borga laun langt undir lágmarkslaunum og níðast á þeim sem ekki þekkja rétt sinn og eru í vægast sagt veikri aðstöðu til að rétta hlut sinn. Hvaða útlendur starfsmaður vogar sér að kvarta, kominn hingað um langan veg til að vinna, þegar hætta er á að missa vinnuna?

Í mörgum evrópulöndum hafa skapast vandamál vegna fjölda innflytjenda. Þeir safnast saman í ákveðnum hverfum, taka með sér siði og venjur heimalandsins, tala mál nýja landsins lítt eða ekki, einangrast og verða lægstir allra í mannfélagsstiganum. Við þessu hafa norðurlöndin reynt að bregðast með félagslegum aðgerðum s.s. öflugri, ókeypis kennslu í máli nýja heimalandsins og fullorðinsfræðslu.

En hvernig ætla Íslendingar að bregðast við þessum þessum fjölda erlendra starfmanna? Er ráðið það að takmarka fjölda aðfluttra, loka landinu fyrir útlendingum eða fyrir ákveðnum þjóðum og þá helst þeim fátækustu í Evrópu?

Hér á landi hafa stjórnvöld ekki haft neina stefnu í málefnum útlendinga nema þegar um hefur verið að ræða litla hópa flóttamanna. Þau sveitarfélög sem tekið hafa á móti erlendum flóttamönnum hafa skipulagt komu þeirra vel, staðið að íslenskukennslu, aðstoðað við útvegun húsnæðis og atvinnu. Þessi verkefni hafa tekist vel, nýjum íslendingum vegnað vel.

Um aðra útlendinga sem sækja hingað til vinnu gegnir öðru máli. Stjórnvöld  hafa enga skýra stefnu haft, hafa ekki viljað  kosta neinu til. Þeir sem hafa viljað læra málið hafa orðið gera það á eigin kostnað í kvöldskólum eftir langan vinnudag. Þeir eru þó til sem eru svo heppnir að starfa hjá fyrirtækjum sem bjóða upp á íslenskukennslu í vinnutíma en það er mikill minnihluti. Nú hefur þó ríkisstjórnin ákveðið að veita 100 milljónum króna til íslenskulennslu fyrir útlendinga.

Vissulega geta skapast ýmiss vandamál þegar útlendir starfsmenn flykkjast til landsins. En við eigum að læra af mistökum annarra. Vandinn hverfur ekki með því að loka landinu. Stjórnvöld verða að setja stefnu og markmið. Við eigum að kenna íslensku í vinnutíma. Á öðrum norðurlöndum er kennsla í máli nýja landsins á vegum samfélagsins 2000-3000 kennslustundir oft dreifð á 3 ár. Innflytjendur eiga rétt á þessari kennslu og auðvitað ókeypis! Við eigum að kenna íslensku í vinnutíma. Og það er öruggt mál að 150 - 200 tímar er allt of lítið. Það er ekki sennilegt að auðveldara sé að læra íslensku en önnur norðurlandamál!  Og það er ekki nóg að kenna aðeins fyrirvinnum íslensku. Allir í fjölskyldu nýrra innflytjenda, eiginkonur, unglingar og börn þurfa kennslu í nýju tungumáli.

En það er ekki nóg að kenna íslensku. Við eigum að vinna gegn  fordómum á öllum sviðum, á vinnustöðum, í skólum, í samfélaginu öllu. Það þarf sérstök lög sem banna mismunun á grundvelli kynferðis, uppruna, litarháttar, kynhneigðar, trúar, efnahags, stjórnmálaskoðana og stöðu. Það á að koma í veg fyrir félagsleg undirboð. Útlendir starfsmenn eiga ekki að verða annars flokks þegnar á lægri launum en innfæddir. Það á með skýrri stefnu og markvissum aðgerðum að auðvelda innflytjendum þáttöku á öllum sviðum samfélagsins. Íslendingar verða að vera áfram ein þjóð jafnvel þó hluti hennar sé af erlendu bergi brotin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband